Undanfarin misseri hefur umræða aukist um starfsemi erlendra vörsluaðila á Íslandi. Opinber umræða er af hinu góða, sé hún byggð á réttum upplýsingum og sanngjarnri framsetningu. Því þykir Allianz Ísland hf. rétt að árétta nokkur atriði almenningi og viðskiptavinum til glöggvunar.
1. Allianz Ísland hf. hefur starfað hér á landi óslitið í yfir 30 ár og hefur á þeim tíma boðið upp á tryggingasamninga þýska vátryggingafélagsins Allianz Versicherungs AG og líftryggingafélagsins Allianz Lebenversicherungs AG. Félögin eru hluti af Allianz tryggingasamsteypunni sem sinna 125 milljón viðskiptavinum, einstaklingum og fyrirtækjum í næstum 70 löndum.
2. Til að fá að starfa á þessum markaði hér á landi þarf Allianz Ísland hf. að fylgja í einu og öllu þeim kröfum sem bæði íslensk og þýsk lög gera til okkar starfsemi. Við leggjum okkur fram um að starfa á þessum markaði af fagmennsku og heiðarleika og í sem bestu samstarfi við aðra aðila; lífeyrissjóði og vörsluaðila, með hagsmuni viðskiptavina og almennings að leiðarljósi.
3. Það er verkefni og skylda Allianz Ísland hf. að sjá til þess að viðskiptavinir séu að fullu og öllu upplýstir um þær vörur sem við bjóðum uppá, hvernig þær eru frábugðnar öðrum valkostum og þeir geri sér grein fyrir því hvað felst í samningum um lífeyristryggingu. Það er svo hvers og eins að ákveða hvaða leið hann telur best henta sér, bæði sínum áherslum og hagsmunum.
4. Allianz Ísland hf. tekur þessu hlutverki alvarlega og er vandað til verka þegar kemur að því að veita faglega, vandaða og upplýsandi ráðgjöf. Allir þurfa að fara í gegnum ítarlega þarfagreiningu , þar sem hvert skref í ráðgjöfinni er skjalfest, og upplýsingar eru aðgengilegar og skýrt framsettar í tilboðsgögnum hvers og eins. Viðskiptavinur fær útreikninga sem sýna áætlun út frá hans forsendum, ásamt þróun samningsins og sundurliðun á öllum kostnaði.
5. Í umræðu undanfarinna missera um erlenda vörsluaðila hefur öllum aðilum verið lýst sem einum hópi. Mikilvægt er að gera skýran greinarmun á milli aðila og tilgreina sérstaklega þau fyrirtæki sem átt er við, ef um brot eða ágalla í starfsemi er að ræða. Í þeim dæmum sem nefnd hafa verið opinberlega hafa málin einkum varðað ráðgjöf, upplýsingagjöf og þjónustu sem í besta falli telst vafasöm og í sumum tilfellum kann að brjóta í bága við lög. Slík tilfelli eiga þó ekki við um Allianz Ísland hf., starfsemi félagsins er í samræmi við þær kröfur og skyldur sem íslensk og þýsk lög kveða á um, og leggur ríka áherslu á gagnsæi, fagmennsku og trausta þjónustu við viðskiptavini sína.
6. Allianz Ísland hf fagnar samanburði sparnaðartrygginga við aðra fjárfestingarkosti sem fólki stendur til boða. Hafa þarf í huga í þessum samanburði að afar mikilvægt er að bera saman epli og epli og gera grein fyrir grundvallar mismun á þeim kostum sem í boði eru. Slík nálgun gerir viðskiptavinum kleift að taka upplýsta ákvörðun um þá leið sem samræmist þeirra væntingum og áhættusækni.
7. Sú sparnaðarleið sem Allianz Ísland hf býður er frábrugðin mörgum öðrum valkostum á íslenskum markaði. Sparnaðarformið er tryggingasamningur sem hefur aðra eiginleika en t.d. fjárfestingasjóðir. Tryggingasamningur býður upp á vernd gegn neikvæðri þróun á mörkuðum, með tryggðum höfuðstól sem tryggir ákveðna niðurstöðu við lok samnings. Sá möguleiki hentar þeim sem vilja tryggða niðurstöðu, vernd gegn markaðsáhrifum og sparnað til lengri tíma.
8. Á virkum samkeppnismarkaði er oftast hægt að nálgast fjölbreytt framboð vara og þjónustu. Á slíkum markaði eru skýr samskipti og fræðsla nauðsynleg til að tryggja gagnsæi um mismunandi kosti. Rangar og villandi fullyrðingar samkeppnisaðila til að upphefja sig og draga úr trausti á öðrum kostum, geta valdið ruglingi og dregið úr skýrleika. Slík vinnubrögð verða að teljast óheiðarleg og ekki í hag almennings.
15.10.2025